Minning

Farinn heim í Dýrðina.
Ásgrímur Stefánsson fæddist á Siglufirði 4. október 1923. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 17. Janúar 2014. Foreldrar hans voru Stefán Grímur Ásgrímsson, f. 26. september 1899, d. 1. desember 1968, og kona hans Jensey Jörgina Jóhannesdóttir, f. 3. júlí 1893, d. 15. júlí 1958. Systkini Ásgríms eru Jón Arndal f. 7. desember 1920 d. 26. desember 2011, Sigurlaug Arndal, f. 26. febrúar 1922, Guðrún Þorbjörg, f. 15. janúar 1925, Elín, f. 23. júní 1926, d. 22. ágúst 1926, Magðalena, f. 24. janúar 1928, Elín, f. 9. ágúst 1930, Lóa, f. 24. mars 1933, d. 21. mars 2005, óskírður drengur, f. 1935, d. fjögurra daga.

Ásgrímur kvæntist 10. maí 1947 fyrri konu sinni Sigurlaugu Kristinsdóttur f. 20. júlí 1921 d. 3. janúar 1996. Þau eignuðust einn son, Kristin f. 6. október 1949 giftur Þórdísi Karlsdóttur f. 22. febrúar 1946, sonur þeirra Ómar Þór. Fóstudóttir þeirra frá 6 mánaða aldri, Hekla Gestdóttir f. 2. maí 1947 d. 26. júlí 2009, fyrri eiginmaður Skúli Ísleifsson f. 10. janúar 1942 d.9.febrúar 1999. Síðar gift Herði Júlíussyni f. 18. júní 1936, börn, Sigurlaug Jensey Skúladóttir, Skúli Kristinn Skúlason, Sigurbjörg Helga Skúladóttir, Ásgrímur Harðarson og Trausti Harðarson. Síðar tóku þau tvo drengi í fóstur, Kristin Gunnarsson, f. 25. september 1959 og Hannes Rútsson f. 28. júlí 1959. Barnabarnabörnin eru 12 talsins og barnabarnabarnabörnin 2. Ásgrímur giftist seinni konu sinni Þóru Guðrúnu Pálsdóttur f. 21. september 1926, þann18. desember 1999.

Ásgímur ólst upp á Siglufirði og Akureyri, stundaði nám í smíðum og varð húsasmíðameistari en um sextugt aflaði hann sér kennararéttinda og kenndi við grunnskóla í tæp 10 ár.

Árið 1954 fluttu Ásgrímur og Sigurlaug til Hafnarfjarðar þaðan árið 1955 til Stykkishólms til að taka við starfi hvítasunnumanna þar í bæ. Árið 1959 var Ásgrímur fenginn til að veita umsjón byggingu Fíladelfíukirkjunnar í Reykjavík. Árið 1969 fóru þau til Siglufjarðar. Þar störfðuðu þau í Zíon til ársins 1986 að þau fluttu til Akureyrar. Ásgrímur flutti til Keflavíkur árið 1997.

Útför Ásgríms fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Hátúni 2, Reykjavík í dag, 31. janúar 2014, og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður á Akureyri.

Um leið og ég kveð föður minn Ásgrím, þá vil ég þakka starfsfólki á D-álmu Heilbrigisstofnunar Suðurnesja fyrir sérstaklega góða umönnun og hlýhug. Pabbi var einstakur að því leiti að hann var mjög trúr sinni sannfæringu. Þegar hann var 15 ára gamall, þá upplifði hann það að frelsast. Hann sagði oft frá þessari upplifun sinni. Hann var þá að vinna í skóverksmiðjunni Iðunni á Akureyri og þá segir hann að hann hafi heyrt sagt við sig, Að hann yrði að gefast Guði núna. Hann fékk frí úr vinnunni , fór heim og bað til Drotins í 2 klukkustundir, uns hann fann frið Guðs og fullvissu í hjarta sínu. Þennan frið átti hann allt til dauðadags og þegar ég heimsótti hann einn daginn á spítalann þá var hann einmitt að segja einni af hjúkrunarkonunum að hann tryði á Jesú og þótt hann væri að deyja , þá myndi hann lifa. Nú er faðir minn komin heim til Jesú í dýrðina. Guð blessi minningu þína kæri pabbi.

Kristinn Ásgrímsson

Skrifað af Kristinn Ásgrímsson